sunnudagur, 28. desember 2014

Dúkkuheimili í Borgarleikhúsinu - MUST SEE fyrir þá sem þora.




Ég fór í kvöld á general prufu í Borgarleikhúsinu á Dúkkuheimili sem er jólasýningin í ár. Þetta er stórkostleg sýning sem er um 5 manna fjölskyldu sem hefur það nokkuð gott fjárhagslega. Nóra konan á heimilinu á sér stórt og myrkt leyndarmál sem engin má komast að, allra síst maðurinn hennar. Leikarar sýningarinnar eru Unnur Ösp, Hilmir Snær, Þorsteinn Bachman, Aldís Hrönn Egilsdóttir og Valur Freyr Einarsson. Á midi.is stendur að Ingvar E. Sigurðsson sé í hlutverki Vals, það getur vel verið að hann hafi hlupið í skarð hans í kvöld en kanski er þetta einnig prentvilla. En Valur Freyr er ekkert síðri leikari en Ingvar. Allir leikararnir voru til sóma og ég horfði í þessa 3 tíma og gapti af innlifun. Þetta var fyrir mig glæný upplifun af leikverki og ég finn hvað ég ljóma að innan eftir þessa reynslu. Þess ber að nefna að ég held hún verði ekki 3 tímar , skilst að það eigi eftir að stytta hana eitthvað svo ekki örvænta þið sem hafið ekki þolinmæði í 3 tíma.
Þetta er örlítið þung sýning en mjög spennuþrungin og dramatísk, en hún hélt mér allan tíman og ég sé ekki eftir því að hafa skellt mér.
Það sem ég hugsaði alla sýninguna var að hversu mikið ég hlakkaði til að geta staðið þarna uppi og leikið frammi fyrir fullum sal með flottum hópi, ég get ekki beðið eftir því að geta sagst vera í sömu starfstétt og þetta flotta leikaralið. Ég sit hérna og læt mig dreyma um að fá hlutverk í hendurnar einn daginn og fá að leika á sviði Borgarleikhússins.
Einnig fór ég á Beint í æð fyr í desember og þar var hlegið af sér allt vit og skemmt sér konunglega. Ég elska Hilmi snæ, það er alveg sama hvað hann tekur sér fyrir hendur hann neglir það gjörsamlega í mark. Þessi rödd sem dáleiðir mann í aðra vídd og leikurinn sem sannfærir mann inn að beini og merg. Þessi maður er algjört meistaraverk og er það minn draumur að fá að starfa með honum einn daginn. Nafna min hún Unnur Ösp er ekki síðri, hún stóð sig ótrúlega vel í kvöld og gaf mér mikla andargift. Ég ætla að standa á þessu sviði einn daginn og það mun ekki vera langt í það mark, þetta verður langhlaup sem ég mun þurfa að hlaupa, en ég skal lofa ykkur því að einn daginn munuði sjá mig leika og ég mun negla það. Lang þráður draumur  sem mun loksins verða að veruleika, ég mun gráta úr mér tárakirtlana af gleði þegar sá dagur rennur upp, ég mun ekki geta lýst þeirri hamingju sem mun ríkja innra með mér. Því skal vera fagnað með vænu glasi af beilís með klaka.


Þakka lesið 
Gleðilega hátið kæru vinir. ;*




sunnudagur, 7. desember 2014

Heimilisofbeldi - "Ég þorði ekki að brosa, hjartað stoppaði....,,

Í dag er ég farin að vinna mikið í áföllum sem hafa hent mig í gegnum árin, ég taldi mig vera komin nokkuð góða leið með til að mynda erfitt ofbeldis samband sem ég var í í 2 ár. Ég og læknirinn minn erum að gera allskyns æfingar og ég er að fara margar leiðir til að koma þessu út, sumir tímar eru óyfirstíganlegir eða flestir reyndar en sumir hafa verið auðveldir. Í seinasta tíma var ég að rifja upp fyrir bæði sjálfri mér og honum atvik sem gerðist í þessu sambandi með þessum manni, eitthvað atvik sem situr í mér og það eru mínar verstu martraðir eins og ég sé enn á ný að upplifa þessu skelfilegu tíma.




Sambandið var stormasamt og ég neita því ekki að hann var ekki eini sem var vondur, ég átti til með að vera leiðinleg. Og ofbeldið var að mestu andleg skot og leiðindar hroki, en þegar hitnaði í kolunum varð það líkamlegt. Hann talaði niður til mín og reyndi hvað sem hann gat til að sannfæra mig um að ég væri einskins verð og ómerkileg manneskja. Ég kom honum til skammar á almenningi, ég talaði of hátt, of lágt, var illa til höfð, var of lítið málið, of mikið máluð og fleira. Ég mátti ekki eiga neina karlvini og nánast engar vinkonur, en hann mátti eiga þá vini sem hann vildi og hann brýndi fyrir mér þær reglur að hann réði því sem hann gerði en ég hafði hvorki gáfur né þroska til að gera þessar ákvarðanir sjálf. Hann neyddi mig til að sofa hjá sér þó ég sagði nei, hann sagði að ef ég svæfi ekki hjá honum hlyti ég bara að vera að halda framhjá honum. Ég var aldrei nógu góð fyrir hann alveg sama hvað ég reyndi, eftir að ég gerði allt sem ég gat til að gera mig fullkomna fyrir mannin sem ég hélt að ég elskaði var hann byrjaður að setja út á hluti eins og útlit mitt líkamlega sem ég gat lítið gert í eins og brjóstin mín sem voru að hans mati ekki nógu stór. Hann átti launin mín og ég fékk ekkert frelsi til neins. Ég hafði útivistartíma ef ég fór á djammið sem var ekki oft og ef ég kom fram yfir þann tíma voru yfirheyrslur á hæðsta stigi. Ég mátti aldrei fá vinkonur í heimsókn. En hann mátti ávalt koma og vera með vini sína og bjóða ókunnugri nágranna konu okkar í heimsókn þegar ég var ekki heima.

Hann hætti með mér nokkrum sinnum og alltaf var það mér að kenna, ég var aldrei nóg fyrir hann. En alltaf kom hann á hnjánum tilbaka minna en 12 tímum seinna grátbað mig um að gleyma þessu og hann tæki þetta til baka og lofaði að breytast og vera góður.
Ég viðurkenni það auðvitað að við áttum skemmtilegar stundir og góðar minningar saman, annars hefði maður aldrei geta eytt 2 árum saman ef það hefði ekki eitthvað verið gott.
Eftir að hann “hætti” með mér í síðasta skiptið og grátbað mig um að gleyma því í sömu andrá var ég komin með nóg. En ég var of hrædd og mér var farið að standa algjörlega á sama um allt og eina helgina fór ég út á land og hitti þar fyrverandi kærasta og þar sem sjálfsvirðingin var möl brotin þá lét ég vaða að halda framhjá. Framhjáhald er aldrei afsökun og ég skammast mín ótrúlega að segja að ég hafi nokkurntíman gert svona ljótann hlut því mér finnst fátt jafn ljótt en að gera einhverjum það, en í þessari stöðu og á þessum tíma fannst mér þetta vera það besta sem ég gat gert. Þegar ég sagði honum þetta varð hann virkilega óhress og sár auðvitað. En ég fann enga samkennd með honum enda var hann búin að brjóta mig niður í heil 2 ár og ég gat gefið honum aðeins snefilsbita af því sem hann hafði gert mér. Seinna sagði hann mér að hann hafi aldrei elskað mig, hann væri þakklátur fyrir að ég hafi haldið framhjá honum því honum liði miklu betur án mín, og honum væri alveg sama hvort ég myndi deyja það myndi ekki skipta hann neinu máli.

Í dag hugsa ég enn hvort það sé raunin ef hann sæi dánartilkynningu í blaðinu og að hann myndi bara flétta framhjá henni eins og það sé bara einhver sem hann þekkir ekki. Ég veit það skiptir nákvæmlega engu máli en það er samt sem áður eitthvað sem ég get ekki leitt hjá mér því þrátt fyrir það sem hann gerði mér þá vill ég að honum líði vel og eigi gott líf því að maður sem er svona skemmdur er ekki heill andlega og verður það ekki nema að leita sér hjálpar.



Liðin eru 5 ár síðan þessu sambandi lauk og ég hélt að ég væri búin að vinna heil mikið í þessu en ég rakst á hann í dag og ég fraus. Ég þorði ekki að brosa, hjartað stoppaði, ég fékk högg í sálina, skyndilegann hausverk og mig langaði að forða mér í burtu. Ég vonaði svo innilega að hann hafi ekki séð hversu mikið mér brá, því það versta sem ég get hugsað mér er að sýna honum veikleika. En þar sem ég var í búð og var að versla með syni mínum gat ég ekki bara gengið út án þess að versla svo ég faldi mig þar sem hann sá mig ekki og beið þar til hann gekk út. Þarna gerði ég mér grein fyrir því að ég lét hann stjórna mér, hann stjórnar mér enþá eftir öll þessi ár. Hann hefur ekki hugmynd um hvað hann hefur gert mér og ég vildi óska þess að hann vissi það og sæi af sér. Ég sé alls ekki eftir þessum manni og myndi ekki óra fyrir að leyfa honum að snerta mig aftur alveg sama hvað, en það sem hann gerði mér er prentað fast í sálina mína. Ef þú sem lest þetta ert í ofbeldis sambandi, gerandi eða þolandi. Reyndu að sjá hversu slæmt þetta getur orðið þó maður sleppi úr þessari prísund er ekki bara nóg að fara aftur á markaðinn og leita sér að einhverju betra, þú verður að leita þér hjálpar. Og kæri gerandi, leitaðu þér hjálpar gegn þessu. Og ef þú sérð þetta ekki, leitaðu þér þá hjálpar því þú ert siðblind/ur.

Mbkv.